Gdansk

L Í F I Р
Færslan er ekki kostuð 

Við Tómas ákváðum að drífa okkur í smá frí fyrir veturinn sem verður bæði langur og við mjög upptekin. Nokkrir áfangastaðir komu til greina og við enduðum á Gdansk, höfðum heyrt fólk tala svo ótrulega vel um þann stað og allt svo æðislegt í kringum borgina. 

Til að sjá fleiri myndir ýtið þá hægra meginn á myndirnar!

Gdansk 

Borgin sjálf er svo falleg og hrein,  við vorum á hóteli í miðbænum sem heitir Celestin Residence sem var mjög krúttlegt og lítið hótel. Við vorum ekki með morgunmat, en fórum einu sinni í mat og við vorum bæði á því máli að við hefðum ekki verið til í að borga fyrir hann alla dagana. Fórum í nudd á hótelinu líka, það fannst mér ekki alveg málið en Tómas fýlaði sig vel í því. 

Allur matur er frekar ódýr og við leyfðum okkur að borða flott eiginlega flest kvöldin og ákváðum eiginlega bara að njóta. Gátum alltaf séð í matarinnkaupum og veitingarstöðum að það væri alveg 40-60% ódýrara en hérna heima. Miðbærinn er lítill og hægt að labba allt sem maður vill fara og endalaust nýjar götur til að kanna.   

Sopot 

Sopot er strandbær sirka 25 mínútur í leigubíl frá Gdansk. Við tókum hiklaust leigubíl þar sem ég myndi segja að það væri alveg 60-70% ódýrara en hérna heima, auðvitað þægindin og þurfa ekki að læra á samgöngur. En ef þið farið í leigubíl mundu þá bara að biðja um Sopot Pier, þá ferðu líklega í bæinn hjá brúnni eða rétt hjá brúnni og þar er æðislegt að vera. 

Við vorum bæði ástfangin af Sopot, yndislegur staður og allt svo rólegt, sem einkennir Pólland að miklu leiti. Hjá bryggjunni er hægt að velja að vera á bekkjum sem við borguðum um 120 zlottí sem okkur fannst ekki mikið miðað við æðislega aðstöðu, handklæði, þjónustu og annað allan daginn. Við kíktum reyndar ekki í sjóinn þar sem það er oft bannað að synda mikið í honum vegna óhreininda, en það er mismunandi eftir dögum. 

Okkur langar klárlega að fara aftur og vera á hóteli við ströndina í Sopot, en við upplifðum þann bæ sem mun meiri túristabæ heldur en Gdansk. 

St. Dominic's Fair 

Ótrúleg heppni á okkur að ná seinasta deginum á St Dominics markaðnum, ég bara steig úr herberginu okkar og hljóp upp að segja Tómasi að það væri allt í hvítum tjöldum. 
Þetta var magnað! 
Hvert sem maður leit voru hvít tjöld og aðrir kofar sem fólk var að selja allskonar varning, mat og bara allt sem þig dettur í hug! Við löbbuðum dáleidd útum allt og vorum alveg hugfangin. Mæli mjög með að fara á þeim tíma sem hátíðin er. Þúsund manns sem selja varninginn og margar milljónir manna sem koma á hverjum degi að skoða hátíðina. 

Áhugavert að vita

Það kom okkur mikið á óvart að það væru bókstaflega allir með posa, við lentum tvisvar í því á viku að þurfa að borga með pening. Tókum út 1000 zlottí sem var svo alveg 32 þúsund, það var ekki nauðsynlegt en samt þæginlegt að geta borgað með peningum. 

Það er ekki töluð mikil enska en fólkið er ótrúlega viljugt að reyna að skilja og verður ekki pirrað þegar við skiljum þau ekki og þau ekki okkur. 

Ég myndi persónulega ekki fara til Gdansk og versla föt fyrir mig sjálfa, við fundum hvorugt mikið á okkur og upplifði föt ekki sem það ódýr. Snyrtivörurnar voru alls ekki ódýrar sem kom okkur á óvart, þá allaveganna snyrtivörurnar í Sephora. Mögulega í Inglot og ódýrari verslunum, apótekum og slíkt.

The museum of second world war er safnið sem við sjáum ansi mikið eftir að hafa ekki farið í en fólk mælir ótrúlega mikið með og sérstaklega ef þið komið þegar veðrið er ekki spes þá myndi ég kíkja! 

Við gætum ekki mælt meira með Gdansk og vorum við ótrúlega hrifin af staðnum. Við eigum pottþétt eftir að fara aftur til Póllands!

Fanney VeigarsdóttirComment