Mígreni og allt sem því fylgir.

L Í F I Р

 

Síðan ég opnaði snappið mitt hef ég reynt að leyfa ykkur að fylgjast með mínu daglega lífi kannski of miklu fyrir suma en sumir vilja alltaf meira. Það þýðir auðvitað að þið hafið tekið eftir mígrenisköstum sem ég hef fengið seinastliðið eitt og hálft ár. Þið eruð ótal mörg sem að þurfið að díla við mígreni líka og mig langaði aðeins að spjalla um það, enginn glamúr ekkert nema bara raunveruleikinn ( æla og allt ).

 

Þegar ég var 17 ára minnir mig upplifði ég í fyrsta sinn mígreni. Ég hafði alltaf talið mígreni vera algjört rugl þar sem ég væri oft með höfuðverki en væri samt aldrei óvinnuhæf og skildi ekki þetta rugl. Svo einn veturinn var ég að keyra í skólann heima á Ísafirði um hávetur og það sást ekkert nema snjór og það var mjög bjart, alltíeinu hætti ég að sjá á einu auganu, þurfti að stoppa og ældi. Lagði bílnum þar sem ég sá ekki neitt og var byrjuð að gráta yfir sársauka, þangað til mamma kom og sótti mig. Þá helgina var bróðir minn að fermast og öll fjölskyldan í bænum, það voru mörg köst þessa helgina en við tengdum það aðalega við álag og stress. Mömmu leyst samt ekkert á þetta og fór með mig til læknis eftir helgina. Hann sagðist ekkert geta gert þar sem ég væri þetta ung og það myndi líklegast eldast af mér, eina sem ég gæti gert væri að hætta á pillunni og nota verkjalyf. 

 

17 ára krútt!

17 ára krútt!

 Mígreni er mismunandi fyrir alla og köstin mín eru líka ekki alltaf eins. Ég get samt yfirleitt fundið það þegar köstin eru að koma ég þarf að einbeita mér betur, sé óskýrt og allt verður mun bjartar. Svo verð ég blörruð á einu auganu í smá tíma svo kemur smá hausverkur og þá fer það allt eftir því hversu slæmt það verður og hvort það verði mjög slæmt eða ekki. 

Á mígrenisskalanum 1-10 er þolanlegt ekki 9, fyrir mér er þolanlegt 2, allur hávaði magnast, þrýstingur í hausnum og ógleði. Það eru einstaka sinnum sem ég enda ekki uppí rúmmí með höfuðið undir sæng þegar ég fæ köst. Það hefur annað slagið gerst á morgnanna seinast liðið ár þar sem sjónin verður blörruð og mér finnst það vera koma en svo kemur bara smá hausverkur. 

 

Hlutir sem hafa hjálpað mér í gegnum tíðina. Sumir af þessum hlutum virka ekki lengur og sumir virka enn. 

 

- Treo, seinasta vetur uppgötvaði ég Treo. Það kom kast í vinnunni í 4 sinn þá vikuna og vinkona mín sagði að þegar hún fyndi fyrir kastinu þá tæki hun Treo og þá kæmi ekki kast. Þetta virkaði fyrir mig allan seinasta vetur og þá hélt ég væri komin með lausn, svo bara alltíeinu hætti það að virka. 

 

- Myrkur og þögn, ég verð rosalega ljósfælin þegar ég er með mígreni. Það gerir sársaukan alltaf bærilegri ef ég kemst í kalt herbergi með algjörri þögn, enginn sími, ekkert. Algjört myrkur, ekki hanga í símanum eða í tölvunni. Reyndu að sofna sama hvað og slaka vel á. 

 

- Hiti og kuldi, einu sinni var það svo slæmt að ég grét og grét. Þá lét ég renna í bað og tók gelpúða sem var í frystinum ( ég á alltaf tvo þannig til skiptana ). Lét gelpúðann aftan á hálsinn og ofan á ennið til skiptist, var heitt á líkamanum og kalt á hausnum. 

-> Ef þið eruð ekki bað heima hjá ykkur látið þá sturtuhausinn á fæturnar eða farið í heitt fótabað með gelpúðann aftan á hálsinum. 

 

- Að æla, ég hata að æla ( hver elskar það svosem ) og hingað til hef ég aldrei getað framleitt það sjálf. En ef ekkert annað gengur þá verð ég að grípa í það ráð til að losa þrýsting í hausnum. Oft get ég ómögulega sofnað sem þýðir að það tekur lengri tíma fyrir sársaukan að fara og þá neyðist ég til að gera þetta þá stoppar ógleðin mig ekki í að sofna. 

 

- Gelgríma, ég sýndi mína grímu aðeins á snapchat og ég er alltaf með mína í frystinum eða ísskápnum. Hana legg ég yfir augun þegar það er bjart og ég næ ekki að sofna, það bjargar mér algjörlega. Mína grímu keypti ég í Body Shop en passið ef þið eruð með hana í frystinum ekki setja hana þá beint á húðina heldur í viskustykki. Ef þú ert bara með hana í ísskápnum þá má setja hana strax á. 

 

- Að vera í rútínu, þetta virðist gerast minna þegar ég er í góðri rútínu, borða hollt og sef vel. Ég veit að þetta hljómar pirrandi en þetta er bara rétt, þá er líka oftar minna stress og minna álag sem er alltaf gott. Annars hef ég ekki fundið neina leið til að koma í veg fyrir þetta alveg. 

 

 

Þetta eru þau nokkur ráð sem ég hef notað til að hjálpa mér, köstin mín koma í bylgjum svo kannski í marga mánuði ekkert og misslæm. Ég vildi bara deila smá með ykkur hvernig þetta er og gefa ykkur smá ráð, ef þið eigið einhver ráð handa mér þá meigiði endilega deila þeim með mér í kommentum! 

 

Mundu, ef þú heldur að þú hefur fengið mígreni áður þá hefurðu ekki fengið það, mígrenið færi ekki framhjá þér. Treystu mér. 

 

Ef einhver í kringum þig upplifir mígreni ekki gera lítið úr því bara því þú getur ekki séð sársaukan því treystu mér þetta er ömurlegt. Eyðileggur marga daga, margt sem manni langar að gera og aldrei gera lítið úr þessu. Það er ömurlegt að hafa mígreni, ég hef verið að keyra heim úr vinnu og út ælt bílinn minn því ég var í umferð og gat ekki stoppað. Treystu mér það vill þetta enginn, þegar við þurfum að fara úr vinnu eða skóla útaf mígreni þá förum við ekki heim að horfa á sjónvarpið við förum heim að æla eða gráta af sársauka sem er ekki sýnilegur. 

 

Aldrei gera lítið úr mígreni því það er ömurlegt að geta ekki útskýrt þetta eða vita ekki afhverju þetta gerist.