Hakk & Zakk

Jæja, nú þegar það er ný árstíð að byrja þá er alltaf sniðugt að núllstilla sig og byrja uppá nýtt. Finna ný markmið og taka upp gamla góða siði. Ég hef talað mikið um það hvað carbnite henti mér vel og ég er sko tilbúin að byrja aftur eftir smá sumarfrí. Þegar ég byrja aftur að borða í þessum stíl þá skil ég aldrei afhverju ég hætti því þetta hentar mér rosalega vel og líkaminn minn er allt annar. 

Mamma var að prófa nýja uppskrift og eins og þið vitið þá er hún algjör snillingur í þessu og er alltaf að gera skemmtilegar uppskriftir! Ég er eiginlega bara ljósmyndarinn og rita hennar uppskriftir því hún er sko heilinn á bakvið þetta allt saman! 

 

Hakk og Zakk ( fattiði orðaleikinn ? )

Hráefni

500 gr Hakk 

Stór Kúrbítur/Zucchini  

Hálfur Jalapeno/Mexíkó ostur 

Tveir desilítrar Rjómi 

Hakkaðir tómatar með hvítlauk frá Gestus ( fæst í Krónunni ) 

Ein teskeið tómatpúrra

Salt & Pipar 

Nautateningur

 

Aðferð 

Uppskrift nóg fyrir fjóra einstaklinga. 

Fyrst skal rífa niður kúrbít, hægt er að nota sérstakt járn ( fæst t.d í Fjarðarkaup) einnig er hægt að nota rifjárn/ostaskera, tek miðjuna úr. 

Kúrbítúrinn er settur í skál og stráð er yfir vel af salti. Látið bíða meðan allt hitt er gert klárt. 

Hakkið steikt, kryddað með salt og pipar einnig er hægt að setja hvítlaukskrydd. Þegar hakkið byrjar að brúnast er osturinn rifinn yfir. Látið ostinn bráðna með svo skal setja tómatana, púrruna og rjómann. Látið malla í sirka tuttugu mínútur, svo er upplagt að henda í salatið á meðan! 

Svo þarf að skola vel af kúrbítnum í sigti og hrist svo allt vatnið af og helt útá hakkið og látið malla í tíu mín. 

 

 

Meðlæti

Ferskt salat

Salatblanda 

Appelsínugul paprika 

Grænt Jalapeno 

Gúrka

Þá eru þið komin með ótrúlega góða kvöldmáltíð, sniðugt er að elda extra mikið til að eiga daginn eftir. Við Jakob getum nú verið frekar miklir gikkir en við borðum þetta bæði með góðri list og kúrbíturinn verður ekki mjúkur heldur meira stökkur og í líkingu við spagettí. Þetta er líka bara þæginlegur heimilismatur sem ætti að henta vel á hvert heimili!