Góðverk í desember

L Í F I Р

Desember er líklega sá mánuður sem fólk leggur mikla áherslu að gefa og gera góðverk. Að mínu mati heyrist aldrei jafn hátt í góðverkum fólks eins og í desember. Að sama skapi heyrist rosalega hátt líka í fólki að gagnrýna þá sem að deila góðverkum sínum. Afhverju? Ekki get ég svarað því, mér finnst frábært þegar fólk deilir góðverkunum sínum, það hvetur aðra og ef það myndar smá keppnisskap í því hver gefur mest er það ekki bara í góðu? Þetta er keppni um hver gefur mest og það græðir einhver á því. Þessvegna langaði mig að hvetja ykkur til að deila góðverkunum ykkar eins og þið getið, það upplýsir og hvetur fólk til að gera eins og þið. 

Fyrir nokkrum dögum byrjuðu snapparar að skora á hvern annan að gefa pakka undir tréð í Smáralind eða Kringlunni. Þetta fannst mér ótrúlega skemmtilegt og tók áskoruninni og sýndi á snapchat þegar ég setti pakkann undir tréð. Afhverju? Jú því þannig hvetur maður aðra og ég skal glöð viðurkenna það að mér leið betur að gera þetta góðverk. Samt hafði ég aldrei áður pælt í því að setja auka pakka þarna undir í öllu jólastressinu en ég áttaði mig á því hvað það er mikilvægt að gera það þegar stelpurnar fóru að tala um það. 

Svo er annað, öll góðverk virðast snúa um að gefa pening, fyrir marga er desember mjög erfiður mánuður peningalega séð. Þessvegna langar mig að telja upp nokkur góðverk sem kosta ekki neitt nema vinnuna þína. Við getum öll látið gott af okkur leiða án þess að hafa peningaáhyggjur. 

- Gefa föt - 
Við eigum mörg hver föt inní skáp sem hafa kannski aldrei verið notuð eða mjög lítið. Bara taka saman í smá poka, fara með í gám fyrir Rauða Krossinn eða í Konukot t.d. 

- Hjálpa í Rauða Krossinum ( öðrum sambærilegum hjálpastarstörfum ) - 
Það vantar alltaf fólk í sjálfboðavinnu, bara eitt símtal í Rauða Krossinn og þú getur komist að því hvar þú getur boðið þig fram. Eins og t.d. hjá 1717, í búðum Rauða krossins, það vantar allstaðar hjálp! Sími; 570 4000. 

- Gefa blóð - 
Fara að gá hvort þú megir gefa blóð og gera það svo. Það tekur ekki langan tíma og getur bjargað lífi. 

- Hjálpræðisherinn - 
Verða sjálfboðaliði hjá Hjálpræðishernum. Ýtið á þennan link www.herinn.is þá getiði haft samband með að verða sjálfboðaliðar. 

- Mæðrastyrksnefnd - 
Það stóð ekkert á síðunni þeirra um að verða sjálfboðaliði, en mæli með að þið kíkið til þeirra. Það vantar eflaust aukna hjálp um jólinn. 

- Heimsóknarvinur Rauða Krossins - 
Þetta gerði vinkona mín og ég þvílikt dáðist að henni og sé eftir að hafa ekki gert það sama. En hún fór á elliheimili og var félagskapur eldri konu. Það er hægt að verða heimsóknarvinur og bara það að gefa félagskap gefur svo mikið. Skammdegið er nógu erfitt og hvað þá ef aðili á enga aðstandendur. 

- Sjálfboðaliði hjá Konukoti - 
Þetta fellur undir sjálfboða vinnu hjá Rauða Krossinum, en mig langaði að minnast á það sér vegna þess að þetta t.d. vissi ég ekki að væri hægt. Það vantar svo gríðarlega aðstoð allstaðar, endilega bara hringið í Rauða Krossinn og sjáið hvar þörfin er mest. 

Þetta eru bara nokkrar hugmyndir, svo eru hversdagslegu góðverkin. Að heimsækja ömmur okkar og afa, hjálpa fólki sem verður á vegi okkar, gleðja fólk eins og við getum. 

Ég vona að einhverjir taki þetta til sín sem geta og þá þurfa góðverk ekki að vera að taka á ykkur fjárhagslega séð. Svo er auðvitað hægt að vera sjálfboðaliði allt árið í kring. En það eru ótrúlega mikið af söfnunum ef þið eigið pening til að gefa. 

Annars langaði mig að skora á ykkur öll sem lesið þetta blogg ef þið getið, að setja smá pakka undir tréð í Smáralind eða Kringlunni. Mig langar líka að hvetja ykkur að gefa eldri krökkum gjafir líka þar sem þau fá fæstu gjafirnar. Líka langar mig að hvetja ykkur að deila góðverkunum ykkar eins og þið getið þvi þau munu hafa áhrif áfram. 

Vildi þakka vinkonum mínum fyrir hjálpina en ég vissi alls ekki hversu mikið er hægt að gera án þess að þurfa að eyða pening!